Von
Takk fyrir að kíkja á nýja diskinn Von ! Tónlistin er nokkuð rökrétt framhald af fyrri útgáfum mínum með Ljósunum í bænum, en síðasta plata með þeim, Disco Frisco, kom út um 1980. (Með þessari afkastagetu kemur næsta plata mín út á níræðisafmæli mínu :) Þetta eru lög um allt hið mannlega á milli himins og jarðar. Samt finnst mér eftir á að hyggja að yfirbragðið sé af jákvæðum toga, þess vegna skírði ég diskinn Von, eftir einu laganna sem fjallar um það sem heldur okkur á floti dag frá degi: Vonina. Geisladiskurinn Von inniheldur lög sem urðu til á löngu tímabili. Þau varðveitti ég sem skissur á nótnablöðum, kassettur og öðru formi eins og tök voru á. Það var samt ekki fyrr en á þessu ári sem ég sló til, útsetti lögin, fékk til liðs við mig bestu hljóðfæraleikara og söngvara sem ég gat fundið og afraksturinn var að líta dagsins ljós nú rétt í þessu. Á disknum syngja þau Regína Ósk og Þór Breiðfjörð. Þeim til fulltingis eru þeir: Óskar Einarsson: Píanó, Hammond og hljómborð Pétur Valgarð Pétursson: Gítar Jóhann Ásmundsson: Bassi Jóhann Hjörleifsson: Trommur Birkir Freyr Matthíasson: Trompet Samúel Jón Samúelsson: Básúna Raddir: Margrét Eir og Regína Ósk, Fanný K. Tryggvadóttir og Hrönn Svansdóttir Stefán S. Stefánsson: Saxófónar